Hvernig virka sjúkratryggingar?

Þeir sem hafa haft lögheimili Íslandi undanfarna sex mánuði eru sjálfkrafa sjúkratryggðir í almannatryggingakerfinu. Þeir sem eru sjúkratryggðir greiða lægri gjöld þegar þeir fara til læknis, greiða minna fyrir lyf, hjálpartæki, rannsóknir, sjúkraþjálfun og fleira.

Hvað er evrópska sjúkratryggingakortið?

Íslenskir ríkisborgarar, sem og ríkisborgarar innan Evrópska Efnahagssvæðinu (EES) og Sviss eiga rétt á evrópsku sjúkratryggingakorti(sjá lista yfir lönd neðar). Það kemur sér vel ef maður veikist eða slasast í öðru ríki innan EES eða Sviss, á meðan dvalið er þar tímabundið. Kortið staðfestir að maður hafi rétt á heilbrigðisþjónustu innan opinbera sjúkratryggingakerfisins í viðkomandi landi.

  • Þegar kortinu er framvísað þarf einnig að framvísa persónuskilríkjum.

Hvaða kostnað dekkar evrópska sjúkratryggingakortið ekki?

Evrópska sjúkratryggingakortið veitir ekki rétt til heimflutnings til Íslands né þess kostnaðar sem flokkast sem beinn sjúkrakostnaður, t.d. vegna breytinga á ferðaáætlun. Gott er að kaupa sérstakar ferðatryggingar sem greiða bætur fyrir fleira en almannatryggingarnar gera.

  • Athugið að stundum eru ákveðnar tryggingar innifaldar í kaupunum ef greitt er fyrir flugmiða með kreditkorti.
  • Evrópska sjúkratryggingakortið veitir ekki afslátt af ýmissi heilbrigðisþjónustu á vegum einkaaðila, utan hins opinbera heilbrigðistryggingakerfis.

Hversu lengi gildir evrópska sjúkratryggingakortið?

Kortið gildir almennt í tvö ár en fellur úr gildi ef maður er ekki lengur sjúkratryggður á Íslandi. Þeir sem starfa í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins eiga almennt að vera sjúkratryggðir í því landi sem þerir starfa í. Starfi maður tímabundið erlendis fyrir íslenskan vinnuveitanda getur maður þó sótt um áframhaldandi sjúkratryggingar á Íslandi.

  • Mikilvægt er að kynna sér öll mál varðandi sjúkratryggingar vel, áður en haldið er til útlanda að vinna.

Í hvaða löndum gildir evrópska sjúkratryggingakortið?

Evrópska sjúkratryggingakorið gildir í löndum evrópska efnahagssvæðisins og Sviss Þau lönd eru:
Austurríki, Belgíu, Bretlandi, Búlgaríu, Danmörku, Eistlandi, Finnlandi, Frakklandi, Grikklandi, Hollandi, Írlandi, Ítalíu, Kýpur (gríska hlutanum), Lettlandi, Liechtenstein, Litháen, Lúxemborg, Möltu, Noregi, Portúgal, Póllandi, Rúmeníu, Slóvakíu, Slóveníu, Spáni, Sviss, Svíþjóð, Tékklandi, Ungverjalandi og Þýskalandi

Hvernig sækir maður um evrópska sjúkratryggingakortið?

Á vef Ísland.is má sækja um Evrópska sjúkratryggingakortið. Kortið er sent á skráð lögheimili innan 3-5 virkra daga.

Hvaða reglur gilda um sjúkratryggingar í löndum utan EES svæðisins?

Íslenskir ferðamenn sem veikjast eða slasast í löndum utan Evrópska efnahagssvæðissins (EES) eða Sviss geta fengið sjúkrakostnað endurgreiddan að hluta hjá Sjúkratryggingum Íslands. Skila þarf inn frumritum af reikningum frá heilbrigðisstofnunum, ásamt staðfestingu á greiðslu.

Eru námsmenn sem stunda nám erlendis sjúkratryggðir?

Námsmenn með lögheimili á Íslandi, sem dvelja við nám erlendis, eru sjúkratryggðir meðan á náminu stendur, ef þeir eru ekki tryggðir í almannatryggingakerfi þess lands sem þeir stunda nám í. Þeir mega ekki vera í vinnu með náminu og námið verður að vera viðurkennt, líkt og eftirfarandi skilgreiningar segja til um:

  • Með námsmanni er átt við einstakling sem er ekki launþegi né sjálfstætt starfandi og er við nám eða starfsþjálfun sem lýkur með útgáfu vottorðs um menntun sem viðurkennt er af yfirvöldum.
  • Taki námsmaður upp fasta búsetu eða launaða vinnu í námslandinu ber honum að tilkynna það til Þjóðskrár. Eftir það fellur hann ekki lengur undir íslenska tryggingavernd.

Sjúkratryggingar íslenskra námsmanna í EES löndum og Sviss

Námsmenn sem læra erlendis, utan Norðurlandanna, eiga að geta haldið lögheimili sínu á Íslandi meðan á náminu stendur og haldið þannig rétti sínum til almannatrygginga. Námsmenn þurfa þó að kynna sér vel reglur þess lands sem farið er til. Námsmenn og fjölskyldur þeirra eiga rétt á læknishjálp þar ef þörf krefur í samræmi við EES reglur um almannatryggingar . Til að tryggja rétt sinn þurfa þeir að sækja um Evrópska sjúkratryggingakortið.

Sjúkratryggingar íslenskra námsmanna á Norðurlöndum

Þeir sem fara í nám til Norðurlandanna taka yfirleitt upp búsetu þar og falla þá undir almannatryggingar viðkomandi lands. Læknisaðstoð er samkvæmt reglum viðkomandi lands og geta þær verið ólíkar á milli landa. Mikilvægt er að kynna sér þessi mál vel áður en farið er í nám á Norðurlöndunum.

Sjúkratryggingar íslenskra námsmanna utan EES

Námsmenn sem stunda nám utan EES landa, og fjölskyldur þeirra, geta haldið lögheimili sínu hér á landi meðan á námi stendur og þar með haldið rétti sínum til almannatrygginga. Hægt er að fá útgefna tryggingayfirlýsingu um sjúkratryggingar hér á landi.

Hvaða sjúkratryggingaréttindi hafa Íslendingar sem hafa atvinnu erlendis?

Réttindi til sjúkratrygginga fara eftir milliríkjasamningum og gilda því mismunandi reglur eftir því hvaða landi er starfað í.

Sjúkratryggingar og vinna í öðru landi innan EES

Þegar unnið er í öðru EES landi gilda almannatryggingareglur EES samningsins. Launþegi sem vinnur aðeins í einu EES landi fellur yfirleitt undir almannatrygginga löggjöf þess lands þótt hann sé búsettur í öðru EES landi. Sama gildir um sjálfstætt starfandi einstaklinga. Sjómenn sem vinna um borð í skipi sem siglir undir EES fána falla undir löggjöf fánalandsins. Þó má finna undantekningar á þessari almennu reglu. Opinberir starfsmenn falla undir sömu löggjöf og þau stjórnvöld sem þeir starfa fyrir.

Sjúkratryggingar og vinna utan EES

Ef unnið er í landi þar sem hvorki EES samningar né aðrir milliríkjasamningar eru í gildi getur einstaklingur sótt um að halda almannatryggingavernd sinni. Skilyrði eru meðal annars að viðkomandi starfi erlendis fyrir aðila sem hefur starfsemi og aðsetur á Íslandi og tryggingagjald sé greitt hér á landi af launum hans. Slíka heimild má veita í eitt ár. Að því loknu má framlengja tryggingaskráningunni í allt að fjögur ár til viðbótar, en áður þarf að meta hvort skilyrðin séu áfram uppfyllt.
Staðfestingu á slíkri tryggingu skal sækja til Sjúkratrygginga Íslands að minnsta kosti fjórum vikum fyrir brottför.

Náðu í evrópska sjúkratrygginga app-ið

Til er snjallsímaforrit með öllum upplýsingum um evrópska sjúkratryggingarkortið á 24 tungumálum, þar á meðal Íslensku.

Sjúkratryggingar Íslands

Afgreiðslutími: 10:00-15:30
Skiptiborð: 10:00-16:00
Laugavegi 114-118
150 Reykjavík
S: 515-0000
http://Sjukra.is
sjukra@sjukra.is

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar