Hvernig gengur sálfræðimeðferð fyrir sig?

Sálfræðimeðferðir eru mjög ólíkar eftir meðferðaraðilum. Sálfræðingar styðjast við ólíkar kenningar og aðferðir og oftast er hver meðferð miðuð sérstaklega að viðkomandi einstaklingi og hans vanda. Markmiðið er ávallt það að styðja skjólstæðinginn í að ráða bug á sínum vanda og leiða hann til sjálfshjálpar. Sálfræðingar notast einungis við samtalsmeðferðir en geðlæknar geta notað bæði samtalsmeðferð og lyfjagjöf.

Geðlyf ætti eingöngu að nota ef aðrar aðferðir hafa ekki dugað

Einnig er þau notuð ef veikindin eru það alvarleg að venjuleg sálfræðimeðferð dugar ekki ein og sér. Við vægu þunglyndi eða kvíða getur hugræn atferlismeðferð og reglubundin hreyfing gefið mun betri raun en inntaka lyfja. Geðlyf geta haft ýmsar aukaverkanir sem eru mismunandi eftir einstaklingum. Þau geta til að mynda valdið tilfinningadoða, þyngdaraukningu og verið ávanabindandi. Sterk geðlyf geta valdið mun alvarlegri aukaverkunum.

Hvernig velur maður sér sálfræðing eða geðlækni?

Best er að velja sér sálfræðing eða geðlækni í samráði við fagaðila. Hægt er að fara í viðtalstíma á geðdeild Landspítalans við Hringbraut og ræða þar um áframhaldið. Einnig er hægt að hafa samband við Hugarafl, en samtökin veita ýmiskonar ráðgjöf um geðsjúkdóma og bataleiðir út úr þeim. Gott er líka að ræða málin opinskátt við fólkið í kringum mann. Margir hafa reynslu af einhverskonar sálfræðimeðferð og geta bent á góðan meðferðaraðila.

Hvað kostar sálfræðimeðferð eða heimsókn til geðlæknis?

Fólk á ekki að láta kostnað við læknisþjónustu fæla sig frá því að finna lausn á vanda sínum. Heilsan er ómetanleg, hvort sem hún er líkamleg eða andleg. Sálfræðimeðferðir geta vissulega verið kostnaðarsamar. Því er gott ráð að byrja á því að panta sér tíma á göngudeild geðdeildar Landspítalans við Hringbraut og kynna sér málið áður en lengra er haldið.

Viðtal við lækni eða hjúkrunarfræðing á geðdeild Landspítalans kostar 4.688 krónur. Síminn hjá Landspítalanum er 543-1000. Einnig er hægt að mæta beint á staðinn og fara í frítt viðtal á milli klukkan 12:00 og 19:00 alla virka daga.

Hvernig getur fólk fjármagnað sálfræðimeðferð?

Tímar hjá sálfræðingum eru ekki niðurgreiddir af sjúkratryggingum og greiðslur til þeirra safna því ekki réttindum til afsláttarkorts. Heimsóknir til geðlækna gera það hinsvegar.  Stéttarfélög taka oft þátt í kostnaði við sálfræðimeðferð. Það er misjafnt eftir stéttafélögum hversu langan tíma það tekur að vinna sér inn réttindi á styrkjum. Oft eru það á bilinu 3 til 6 mánuðir.

Hvað er hugræn atferlismeðferð?

Hugræn atferlismeðferð er ein mest notaða sálfræðimeðferðin í dag. Hún getur gagnast við depurð, kvíða, áföllum, fíkn, samskiptavanda, geðhvörfum, lágu sjálfsmati, áráttu og þráhyggju. Með henni er einstaklingnum hjálpað að greina á kerfisbundinn hátt hugsanir sínar, hegðun og líðan og bent á leiðir til að breyta með markvissum hætti hugsunum og hegðun sem valda vanlíðan.

Hvað er iðjuþjálfun?

Iðjuþjálfun er oft notuð eftir að einstaklingur hefur gengið í gegnum andleg veikindi eða áfall. Hafi orðið röskun á daglegu lífi, þarf að mynda nýjar venjur við breyttar aðstæður, endurskoða lífið og vinna að því að auka lífsgæðin. Iðjuþjálfi gegnir því hlutverki að efla fólk í að velja, skipuleggja og framkvæma þá hluti sem þarf að gera í lífi sínu. Iðjuþjálfinn er meira leiðbeinandi heldur en stjórnandi og vinnur með einstaklingnum á jafningjagrundvelli.

Hvað er sálgreining?

Sálgreining er sálfræðimeðferð sem byggir á viðtölum og  sjálfsskoðun. Hún miðar að því að draga úr þjáningum af tilfinningalegum og sálrænum toga. Sálgreinimeðferð á rætur að rekja til kenninga Sigmunds Freud á fyrri hluta síðustu aldar, um að hegðun, hugsun, líðan og viðhorf stjórnist af miklu leyti af ómeðvituðum þáttum. Hugmyndafræðin og aðferðirnar hafa þó tekið miklum breytingum frá upphaflegum kenningum og aðferðum Freud.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar