Hvað er skammdegisþunglyndi ?

Skammdegisþunglyndi er þegar árstíðarbundið veðurfar hefur það mikil áhrif á líða fólks að það finnur fyrir þunglyndi. Skammdegisþunglyndi er algengt yfir vetrartímann (september til mars) þegar veðrið er slæmt og lítið um sólarljós en getur einnig hrjáð fólk yfir björtustu mánuði ársins og þá kallað ástíðabundið þunglyndi.

Hver eru einkenni skammdegisþunglyndis ?

  • Svefnvandamál: Að sofa yfir sig og finnast þú ekki vera úthvíld/ur, vandamál með að halda sér vakandi. Í sumum tilfellum veldur skammdegisþunglyndi truflunum á svefni og því að vakna of snemma á morgnanna.
  • Þreyta/sinnuleysi: Að vera of þreytt/ur til að takast á við daglegt amstur. Allt verður erfitt.
  • Ofát:  Þrá í kolvetni og sætari fæðu sem leiðir til þyngdaraukningu.
  • Þunglyndi: Örvænting, eymd, sektarkennd, kvíði, vonleysi og venjuleg verkefni verða furðulega erfið.
  • Félagsleg vandamál: Forðast fjölskyldu og vini, pirringur, vanhæfni til að höndla streitu, tilfinningalegur dofi og kyndeyfð.
  • Hegðunarvandamál: Öfgakennt skapferði og ofvirkni um vor og haust.

Hvenær gerir skammdegisþunglyndi vart við sig ?

Einkenni byrja yfirleitt að láta á sér kræla í september og fram í apríl. Þau eru verst yfir dimmustu mánuðina.

Hvað veldur skammdegisþunglyndi ?

Nokkrar tilgátur hafa verið settar fram um hvernig birta hefur áhrif á líða fólks.
Einn möguleiki er að það sé tengt bæði dægursveiflu (hringrás svefns og vöku) og hormóninu melantónín sem heiladingull framleiðir, en dagsbirta hefur áhrif á þetta tvennt. Reyndar bendir ýmislegt til þess að allar gerðir þunglyndis tengist á einhvern hátt truflunum á svefntakti. Dægursveiflu svefns og vöku er stjórnað af undirstúku (hypothalamus) í heila. Ljós verkar sem tímagjafi (Zeitgeber) og samhæfir virkni líffræðilegrar klukku manna við sólarhringinn. Mögulegt er að fólk með skammdegisþunglyndi þurfi sterkari eða öflugri tímagjafa en venjulega til að endurstilla líffræðilegu klukkuna.
Þá eru rannsakendur sem telja að ýmsar gerðir þunglyndis stafi af tapi á félagslegum tímagjöfum. Til dæmis hefur fólk tilhneigingu til að samhæfa dagtakt sinn við dagtakt maka síns. Eftir að fólk missir maka sinn fer hversdagstaktur þess úrskeiðis og margir upplifa þunglyndi af þeim sökum.

Hversu algengt er skammdegisþunglyndi ?

Talið er að um 2% einstaklinga í norður Evrópu þjáist af miklu skammdegisþunglyndi og um 10% af mildu. Tíðni skammdegisþunglyndis eykst því fjær sem fólk býr frá miðbaug jarðar.  Þá er skammdegisþunglyndi algengara meðal karla en kvenna ásamt því að börn og gamalmenni eru veikari fyrir.

Gerð hefur verið rannsókn á tíðni skammdegisþunglyndis á Íslandi þar sem í ljós kom að tíðni væri lægri hér á landi en við austurstönd Bandaríkjanna þrátt fyrir að Ísland liggi talsvert norðar. Það kemur á óvart þar sem ein af aðalorsökum skammdegisþunglyndis er talin vera skortur á ljósi yfir vetrartímann.
Tilgáta rannsakenda er nokkuð merkileg. Hún var sú að þar sem Íslendingar hafa búið einangrað í um 1000 ár við erfiðar aðstæður er hugsanlegt að þeir sem hafa erft tilhneigingu til skammdegisþunglyndis hafi átt erfiðara með að finna sér maka og lifa af við þessar erfiðu aðstæður allan ársins hring. Einnig hefur þetta fólk sennilega átt erfiðara með að sjá um börnin sín en aðrir og hátt hlutfall ungbarnadauða (allt að 50%) fyrr á öldum átt sinn þátt í því að skammdegisþunglyndi erfðist síður. Því hefði getað orðið einhvers konar náttúruval þar sem aukið þol við skammdegi hefur valist úr.

Hvað er hægt að gera við skammdegisþunglyndi ?

Ef þú telur þig finna fyrir einkennum skammdegisþunglyndis er best að byrja á því að ráðfæra þig við heimilislækni.

Þó eru til lausnir við skammdegisþunglyndi. Ein er hreinlega að fara í bjartara loftslag þar sem sólin skín meira, hvort sem það er skíðaferð eða til annarra heitari staða. Þá er einnig gott að passa upp á að líkaminn sé að fá nægilega mikið af D-vítamíni, eitthvað sem flestum íslendingum skortir. Gott er að reyna að vera meira með vinum sínum eða fjölskyldu þó það geti oft reynst erfitt. Félagsleg tengsl geta haft mikil áhrif á líðan okkar.

Einnig hefur gefið góða raun að nota svo kölluð skammdegisljós sem gefa samskonar birtu af sér og sólin. Fyrir flesta ætti að duga að sitja við þannig ljós í 15 til 45 mínútur á dag þannig að ljósið skíni í kringum þig (óþarfi er að stara á ljósið). Slíka lampa er meða annars að finna í nokkrum sundlaugum landsins, s.s. Vesturbæjarlaug og Laugardalslaug. Þá eru einnig gefin lyf við skammdegisþunglyndi en ástæða er til þess að  leita annara lausna fyrst.

Heimildir

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar