Til hvers þarf maður að gæta þess að sofa nógu vel?
Svefn hefur áhrif bæði á andlega og líkamlega heilsu. Góður svefn stjórnar því að miklu leyti hversu orkumikill maður er og hvernig manni líður. Flestir kannast við afleiðingar of lítils svefns og hvaða áhrif þreyta getur haft á mann. Viðvarandi svefnleysi eykur auk þess líkurnar á ýmsum líkamlegum og andlegum kvillum og felur í sér töluverða slysahættu. Fólk sefur í allt að þriðjung ævinnar og því er mikilvægt að tileinka sér góðar svefnvenjur. Þannig má strax auka lífsgæðin til muna.
Hvað þarf fólk að sofa lengi?
Það er misjafnt eftir fólki hversu mikinn svefn það þarf. Það veltur á ýmsum þáttum, s.s. hversu mikið fólk hreyfir sig, hvernig vinnu það vinnur og nýverið hafa vísindamenn tengt svefnþörf við erfðafræðilega þætti. Hinsvegar er almennt talið að venjulegur, fullorðinn einstaklingur þurfi að sofa á bilinu 7 ½ til 9 tíma á nóttu hverri til að vera fullhvíldur.
Hér að neðan má sjá svefnþarfir barna og fullorðinna:
- Fullorðnir 18 ára og eldri þurfa að meðaltali 7 ½ til 9 tíma svefn.
- Unglingar 12 til 18 ára þurfa að meðaltali 8 ½ til 10 tíma svefn.
- Börn 5 til 12 ára þurfa að meðaltali 10 til 11 tíma svefn.
- Leikskólabörn 3 til 5 ára þurfa að meðaltali 12 til 14 tíma svefn.
- Smábörn 0 til 1 árs þurfa allt frá 12 tímum og upp í 18 tíma svefn.
Gæði svefnsins segja líka mikið til um orku og vellíðan fólks
Rúmið sem sofið er í hefur mikið um þetta að segja. Þar sem fólk mun koma til með að eyða 20 árum ævi sinnar í rúminu er mikilvægt að fjárfesta í góðri dýnu og þægilegum kodda. Neysla hugbreytandi efna getur haft mikil áhrif á hversu vel fólk sefur, sér í lagi neysla á sykri, koffíni, áfengi, tóbaki og vímuefnum. Af öllum þáttum eru það þó svefntruflanir sem hafa mest áhrif: Gníst í tönnum, laus eða rofinn svefn og jafnvel hrotur geta haft áhrif á hversu vel fólk hvílist. Þjáist fólk af svefntruflunum er ráðlegt að leita til læknis og fá viðeigandi úrræði.
Á Áttavitanum má lesa meira um svefnörðugleika og góð ráð til að sofna
Merki um að fólk fái ekki nægilega góðan og langan svefn eru:
- Ef fólk treystir á „Snooze“-takkann á vekjaraklukkunni.
- Ef fólk á erfitt með að fara fram úr á morgnana.
- Ef fólk er sybbið seinni part dags.
- Ef fólk verður þreytt á fundum, fyrirlestrum eða í herbergjum þar sem er heitt.
- Ef fólk verður þreytt eftir þungar máltíðir.
- Ef fólk þarf að leggja sig á daginn.
- Ef fólk sofnar auðveldlega yfir sjónvarpinu eða bókinni.
- Ef fólki líður eins og það þurfa að bæta upp svefn um helgar.
- Ef fólk sofnar á innan við 5 mínútum eftir að hafa lagst á koddann.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?