Hvað er lotugræðgi?

Lotugræðgi, eða búlimía, er átröskunarsjúkdómur sem einkennist af óhóflegu áti í endurteknum lotum sem enda síðan með því að fólk kastar upp matnum eða reynir að framkalla hægðir. Búlimía er geðsjúkdómur og að mörgu leiti líkur lystarstoli. Algengast er að konur á aldrinum 18 til 25 ára þjáist af búlimíu, en þó geta drengir og fólk í öðrum aldurhópum líka fengið sjúkdóminn.

Hver eru einkenni lotugræðgi?

 • Búlimíu fylgir ekki endilega þyngdartap eða -aukning: Sjúklingar geta verið í kjörþyngd svo árum skiptir, en samt verið haldnir sjúkdómnum.
 • Fólk tekur átlotur, borðað óhóflegt magn af mat. Síðan er reynt að koma í veg fyrir að líkaminn melti hann, s.s. með uppköstum eða lyfjum.
 • Fólk tekur lyf sem stjórna meltingunni.
 • Fólk upplifir mikla hræðslu við að fitna og þyngjast.
 • Fólk einangrar sig og tekur ekki þátt í félagslífi.
 • Fólk fastar, eða er stöðugt í megrun, en fær inn á milli óstjórnlega löngun í mat sem yfirleitt endar með mikilli átlotu.
 • Bulimiu sjúklingar þjást gjarnan af mikilli skömm og hjálparleysi.

Hverjar eru líkamlegar afleiðingar lotugræðgi?

Lotugræðgi veldur gjarnan miklum sveiflum í þyngd og oft þjást sjúklingar af vannæringu. Slíkt getur haft í för með sér meltingartruflanir, beinþynningu, lágan blóðþrýsting, krampa og tíðarstopp (hjá konum). Önnur einkenni geta verið eyðing glerungs á tönnum (vegna magasýra í uppköstum), þurr húð og stökkar neglur. Lotugræðgi getur í slæmum tilvikum valdið innvortis blæðingum, sykursýki, magasári, nýrnaskemmdum og hjartsláttartruflunum.

Hver eru andleg áhrif lotugræðgi?

Lotugræðgin er geðröskun sem orsakast af brenglaðri sjálfsmynd. Henni fylgir iðulega mikil andleg vanlíðan sem kemur fram í þunglyndi, kvíða, félagslegri einangrun, sjálfsvígshugsunum, lágu sjálfsáliti, einbeitingaskorti og fleiru. Þeir sem þjást af lotugræðgi eru gjarnan haldnir mikilli skömm vegna átkastanna sem þeir taka.

Af hverju fær fólk lotugræðgi?

Margar ástæður geta legið að baki því að fólk þróar með sér geðröskun á borð við lotugræðgi. Sjúkdómurinn á rætur sínar að rekja til svipaðra þátta og anorexían; til fegurðarímynda úr vestrænni nútíma menningu, og slæmrar og óljósrar sjálfsmyndar. Áföll geta einnig hrint af stað geðsjúkdómum, þar á meðal lotugræðgi.

Hver er meðferðin við lotugræðgi?

Því fyrr sem leitað er lækninga, því meiri líkur eru á bata. Batinn veltur að miklu leyti á því hversu samvinnufús sjúklingurinn er og viljugur til að ná bata. Þar sem sjúkdómurinn hefur bæði líkamleg og geðræn einkenni þarf meðferðin að miða að því að bæta hvoru tveggja. Mikilvægt er að læknir sjái um meðferðina, gjarnan í samvinnu við sálfræðing. Einnig er gagnlegt að næringarráðgjafi og sjúkraþjálfari komi að málinu.

Meðferðin við lotugræðgi byggist á eftirfarandi:

 • Sjúklingnum er komið í skilning um sjúkdóminn og afleiðingar hans.
 • Eðlilegt næringarástand þarf að nást aftur. Sjúklingur fer í viðtalsmeðferð hjá sálfræðingi. Meðferðin fer fram bæði í gegnum einstaklings- og fjölskyldusamtöl.
 • Stundum er lyfjagjöf nauðsynleg, sérstaklega þegar einstaklingur þjáist af þunglyndi eða er með einkenni áráttu eða þráhyggju.
 • Stundum þurfa sjúklingar að fara í sjúkraþjálfun og líkamlega endurhæfingu.
 • Oft er hægt að fá meðferð án innlagnar. Þá fer hún fram hjá heimilislækni, geðlækni eða sálfræðingi sem hefur reynslu af því að glíma við sjúkdóminn.
 • Þegar þyngdartapið er orðið alvarlegt getur innlögn á sjúkrahús hinsvegar verið nauðsynleg.

Hvar getur fólk leitað faglegrar aðstoðar og ráðgjafar við lotugræðgi?

Mikilvægt er að fólk sem þjáist að búlimíu leiti sér hjálpar eins fljótt og auðið er. Afleiðingar hennar geta nefnilega verið stórhættulegar.

 • Hægt er að hafa samband við Heilsugæsluna í sínu hverfi til að fá greiningu og ráðleggingar um meðferð.
 • Hægt er að mæta án þess að panta tíma á göngudeild geðdeildar Landspítalans við Hringbraut, milli klukkan 12 og 19 alla virka daga, og spjalla við fagaðila. Einnig er hægt að panta viðtal hjá lækni eða hjúkrunarfræðingi, en það kostar 4.688 krónur. Síminn á Landspítalanum er 543-1000.
 • MFM Miðstöðin veitir fræðslu um átraskanir.

 

 

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar