Hvað er lystarstol?
Lystarstol, eða anorexía, er átröskunarsjúkdómur sem lýsir sér þannig að sjúklingur borðar lítið og hreyfir sig mjög mikið. Yfirleitt sér sjúklingurinn sig sem of feitan þótt hann grennist. Orsakir anorexíu eru andlegar en geðröskunin veldur því að fólk telur sig of þungt eða feitt. Sjúkdómurinn leggst oftast á stúlkur á aldrinum 12 til 20 ára en getur lagst á fólk af báðum kynjum á öllum aldri.
Hver eru einkenni anorexíu?
Einkenni eru svolítið einstaklingsbundin. Hér að neðan má þá sjá þau algengustu:
- Anorexíu fylgir iðulega þyngdartap.
- Fólk sniðgengur feitan eða hitaeiningaríkan mat.
- Fólk hreyfir sig mjög mikið eða tekur lyf sem stjórna meltingunni.
- Fólk upplifir mikla hræðslu við að fitna og þyngjast.
- Fólk fær áráttu varðandi mat og hitaeiningar, borðar afar lítið eða þá næringarsnauðan mat.
- Fólk einangrar sig og tekur ekki þátt í félagslífi.
- Fólk kastar upp strax eftir máltíðir.
- Fólk býr til ofstækiskenndar reglur í huga sér varðandi hreyfingu og mataræði.
- Oft eru anorexíusjúklingar haldnir mikilli fullkomnunaráráttu.
Hvaða líkamlegu áhrif hefur anorexía?
Lystarstol, eða anorexía, hefur gífurleg áhrif á líkama fólks – og þá ekki eingöngu á þyngd þess. Fólk þjáist oft að svima, meltingartruflunum, bjúg og óreglulegum hjartslætti. Anorexíu getur fylgt beinþynning, lágur blóðþrýstingur, krampar og tíðastopp (hjá konum). Aðrar breytingar geta líka orðið á útliti fólks, t.d. hárlos, eyðing glerungs á tönnum (vegna magasýra í uppköstum), þurr húð og stökkar neglur.
Hvaða andlegu áhrif hefur anorexía?
Anorexían sjálf er geðröskun sem orsakast af brenglaðri sjálfsmynd. Henni fylgir iðulega mikil andleg vanlíðan sem kemur fram í þunglyndi, kvíða, félagslegri einangrun, sjálfsvígshugsunum, lágu sjálfsáliti, einbeitingaskorti og fleiru.
Af hverju fær fólk anorexíu?
Margar ástæður geta legið að baki því að fólk þróar með sér geðröskun á borð við anorexíu. Að stórum hluta er lystarstol menningartengdur sjúkdómur. Sjúkdómurinn er að mestu bundinn við hinn vestræna heim og fegurðarímynd nútímakonunnar. Sumir telja aðstæður í fjölskyldunni geta haft áhrif, sem og slæm og óljós sjálfsmynd. Aðrir telja að erfiðleikar og áföll, eins og ástvinamissir, geti ýtt undir anorexíu. Hvert einasta dæmi er einstaklingsbundið og í meðferð við anorexíu er reynt að leita að rót vandans hjá viðkomandi einstaklingi. Sérstaklega mikil hætta er á lystarstoli hjá fyrirsætum, ballettdönsurum og úrvalsfólki í íþróttum, því væntingar eru um að þetta fólk sé mjög grannt. Þannig geta utanaðkomandi áhrif líka stuðlað að anorexíu.
Hver er meðferðin við anorexíu?
Því fyrr sem leitað er lækningar við sjúkdómnum, því meiri líkur eru á bata. Batinn veltur að miklu leyti á því hversu samvinnufús sjúklingurinn er og viljugur til að ná bata. Þar sem sjúkdómurinn hefur bæði líkamleg og geðræn einkenni þarf meðferðin að miða að hvoru tveggja.
Mikilvægt er að læknir sjái um meðferðina, gjarnan í samvinnu við sálfræðing. Einnig er gagnlegt að næringarráðgjafi og sjúkraþjálfari komi að málinu.
Meðferð við anorexíu byggist oftast á eftirfarandi:
- Sjúklingnum er komið í skilning um sjúkdóminn og afleiðingar hans.
- Eðlilegt næringarástand þarf að nást aftur. Sjúklingur fer í viðtalsmeðferð hjá sálfræðingi. Meðferðin fer fram bæði í gegnum einstaklings- og fjölskyldusamtöl.
- Stundum er lyfjagjöf nauðsynleg, sérstaklega þegar einstaklingur þjáist af þunglyndi eða er með einkenni áráttu eða þráhyggju.
- Stundum þurfa sjúklingar að fara í sjúkraþjálfun og líkamlega endurhæfingu.
- Oft er hægt að fá meðferð án innlagnar. Þá fer hún fram hjá heimilislækni, geðlækni eða sálfræðingi, sem hefur reynslu af því að glíma við sjúkdóminn. Þegar þyngdartapið er orðið alvarlegt getur innlögn á sjúkrahús hinsvegar verið nauðsynleg.
Hvar getur fólk leitað faglegrar aðstoðar og ráðgjafar vegna lystarstols?
Mikilvægt er að fólk sem þjáist af anorexíu leiti sér hjálpar eins fljótt og mögulegt er. Afleiðingar hennar geta nefnilega verið stórhættulegar og jafnvel banvænar.
- Hægt er að hafa samband við heilsugæsluna í sínu hverfi til að fá greiningu og ráðleggingar um meðferð.
- Hægt er að mæta án þess að panta tíma á göngudeild geðdeildar Landspítalans við Hringbraut, milli klukkan 12 og 19 alla virka daga, og spjalla við fagaðila. Einnig er hægt að panta viðtal hjá lækni eða hjúkrunarfræðingi, en það kostar 4.688 krónur. Síminn á Landspítalanum er 543-1000.
- MFM Miðstöðin veitir fræðslu um átraskanir.
(Mynd í eigu Gabriella Corrado)
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?