Hvað breytist hjá móður á þriðja hluta meðgöngu?

Á síðasta þriðjungi meðgöngu þenst legið út og hægt og rólega fer barnið að taka æ meira pláss. Þessu fylgja oft óþægindi í grind og baki, hreyfigeta minnkar og konur verða oft varar við jafnvægisleysi. Vegna þess að legið þrýstir á þindina getur komið fram mæði og stuttur andardráttur. Konan sefur oft léttar á þessum mánuðum og vaknar á nóttunni. Bjúgur myndast gjarnan á fótum og í andliti. Sumar konur fá á þessum mánuðum gyllinæð, sem þó má vinna á með kremi og stílum. Eins verða konur frekar varar við önnur einkenni sem áður hafa komið fram: stækkandi brjóst, aukna þyngd, samdrætti, bakverki, tíð þvaglát, minna magamál og þörf fyrir að borða oftar, þreytu, harðlífi og fleira.

Hvaða breytingar verða hjá barninu á þriðja hluta meðgöngu?

Í upphafi þessa tímabils er barnið nær tilbúið en heldur þó áfram að vaxa, þroskast, fitna og stækka. Neglur og hár vex, heyrn og sjón eflist og lungun stækka. Móðirin verður vör við dægursveiflur, þ.e. að barnið sefur og hreyfir sig meira þess á milli.

Hvað skal hafa í huga á síðasta þriðjungi meðgöngu?

Síðasta hluta meðgöngu er best að nýta til að undirbúa fæðinguna sjálfa, brjóstagjöf og heimkomu barnsins. Best er að ganga frá öllum hagnýtum atriðum á þessu tímabili, s.s. verða sér úti um barnahúsgögn og föt. Hér að neðan má nálgast gagnlegan gátlista fyrir síðasta þriðjung meðgöngu.

Á 7. mánuði . . .

  • Fer fram fjórða heimsókn til ljósmóður, en farið er í hana á 28. viku.
  • Barnið stækkar ört og þarf æ meiri næringu á þessu tímabili. Móðirin þarf að huga vel að mataræði og gæta þess að hún fái öll nauðsynleg næringarefni.
  • Ráðlegt er að fara að huga að fæðingunni þ.e. ákveða hver verður viðstaddur fæðinguna, hvort móðirin vilji fá deyfingu, o.s.frv. Nokkrir bæklingar gætu komið að góðum notum í þessu málum s.s. fæðing með lyfjum, fæðing án lyfja, vatnsfæðingar, val á fæðingarstað og val á stuðningsaðila.
  • Á Vimeo-síðu Landspítalans má finna fróðleg myndbönd um fæðingardeildina, fæðinguna, heimferð og fleira.
  • Mjólk gæti farið að leka úr brjóstum móðurinnar.
  • Gott væri því að kaupa mjólkurpúða til að setja inn í brjóstahaldara.

Á 8. mánuði . . .

  • Nú fer að líða að síðasta tækifæri til að sækja um fæðingarorlof, en það þarf að gera sex vikum fyrir áætlaðan fæðingardag. Á Áttavitanum má finna greinina „Fæðingarorlof“.
  • Gott er að vera búin að koma öllu barnadótinu fyrir og undirbúa heimilið fyrir komu barnsins. Aldrei er að vita hvenær barnið ákveður að koma í heiminn.
  • Í þessum mánuði fara fram tvær heimsóknir til ljósmóður; á 31. viku og 34. viku.
  • Barnið fer nú að taka mun meira pláss en áður. Það gæti verið að konan þurfi að borða fleiri og minni máltíðir.

Á 9. mánuði . . .

  • Nú er nauðsynlegt að allt sé á hreinu varðandi fæðinguna: hvað skal gera þegar hríðirnar koma, hver fer með konunni upp á spítala, o.s.frv. Á vef Heilsugæslunnar má finna fjöldann allan af upplýsingum sem snúa að fæðingunni.
  • Gott getur verið að kynna sér ýmis hagnýt atriði, s.s. bólusetningar barna og fleira.
  • Á þessu síðasta tímabili er ráðlagt að fara að ganga frá nafngjöfinni á barninu. Og er ekki örugglega búið að velja nafn?
  • Sniðugt er að taka saman lista yfir þá sem á að hafa samband við þegar barnið kemur í heiminn, hvort sem fólk ætlar að hringja eða senda SMS.
  • Það er orðið tímabært að fara á brjóstagjafarnámskeið, ef áhugi er á slíku. Heilsugæslan býður upp á brjóstagjafarfræðslu fyrir verðandi mæður.
  • Í þessum mánuði eru heimsóknir til ljósmóður tíðari en áður. Næstu heimsóknir eru á 36., 38., 40. og 41. viku.
  • Gott er að þvo barnafötin og sængurverin og sjá til þess aðrar nauðsynjar séu tilbúnar fyrir heimkomu barnsins.

Á kynfræðsluvef Námsgagnastofnunar má sjá myndband um fæðingu.

 

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar