Á að fá sér gat?

Ef fólk hyggst láta gata á sér líkamann ætti það að taka sér góðan umhugsunartíma áður en það aðhefst frekar. Götunin verður oftast ekki aftur tekin, hún getur skilið eftir sig ör og haft í för með sér sýkingarhættu.

Hvar á að láta gata sig?

Algengustu staðirnir sem fólk lætur gata eru:

  • eyrnasneplar,
  • eyrun,
  • tungan,
  • nefið,
  • augabrúnir,
  • fyrir ofan nafla.

Tískusveiflur og áhrifavaldar

Göt í eyrnasneplum eru mjög algeng hjá kvenfólki á Vesturlöndum. Önnur götun hefur yfirleitt verið bundin ákveðnum aldurshópum og tískusveiflum. Ef þú lætur gata sig á óhefðbundnum en áberandi stað, t.d. í nef eða augabrún, getur þú átt það á hættu að sjá eftir því síðar meir. Sama á við um svokölluð „tunnels“ í eyrnasneplana. Stór göt gróa ekki auðveldlega og verða kannski ekki aftur tekin. Dæmi eru um að eldra fólk hafi farið í dýrar lýtaaðgerðir til þess að fjarlægja stór göt í eyrnasneplum eftir „tunnel“.

Götun á kynfærum

Klámvæðingin hefur haft það í för með sér að sífellt fleira fólk lætur gata á sér kynfærin. Slíkt er yfirleitt gert í þeim tilgangi að auka unað í kynlífi, en getur haft þveröfug áhrif og haft sársaukafullar og alvarlegar afleiðingar, gangi ekki allt að óskum.

Kynfæragötun krefst mikillar umhugsunar. Enginn ætti að láta tískusveiflur eða þrýsting frá öðrum hafa áhrif á ákvarðanatöku sína í þeim efnum.

Að fara í líkamsgötun

Sértu orðin sjálfráða og ákveðin í að láta gata þig einhversstaðar, ættir þú undantekningarlaust að láta fagmanneskju um verkið. Mikilvægt er að velja sér aðila sem rekur hreinlega stofu og hefur öll tilskilin leyfi til líkamsgötunar.

  • Mikilvægt er að skartgripurinn sem settur er í gatið að götuninni lokinni sé úr ekta málmi og valdi ekki neinum óþægindum.
  • Nál og önnur verkfæri þurfa að vera sótthreinsuð og sá sem gatar þarf að nota hanska.
  • Séu áhöld ekki hrein er hætt við smiti á sjúkdómum á borð við HIV og lifrarbólgu.

Hvað á að gera eftir götun?

Eftir líkamsgötun er mikilvægt að gæta fyllsta hreinlætis. Svæðið í kringum gatið getur verið aumt í dágóðan tíma og tekið mislangan tíma að gróa.

  • Gott er að þrífa svæðið með bómull og sótthreinsandi, en láta gatið og skartgripinn algjörlega í friði þess utan.
  • Fyrir þá sem eru með lokk í munni er gott að skola munninn með munnskoli eftir hverja máltíð.
  • Ef húðin í kringum gatið fer að roðna, hitna eða að sláttur komi í kringum svæðið þarf að leita samstundis til læknis. Ef upp kemur sýking gæti verið þörf á sýklalyfjameðferð. Oft myndast sýking í götum í tungu, nösum og kynfærum því þar er mikið af bakteríum til staðar.

 

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar