Hvað þarf að hafa í huga þegar keyptur er notaður bíll?
Að sjálfsögðu er best að láta fagmenn skoða notaðan bíl áður en hann er keyptur. En fólk getur líka sjálft gert ýmislegt til að ganga úr skugga um að allt sé eins og það eigi að vera. Hér að neðan má finna gátlista sem ætti að hjálpa fólki að meta ástand notaðrar bifreiðar:
Vél, vélarrúm og við stýrið:
- Eru óhreinindi eða olía utan á vélinni?
- Eru dropar undir bifreiðinni? Sé leki getur viðgerð verið kostnaðarsöm.
- Hvernig lítur rafgeymirinn út? Er útfelling við pólana?
- Gott er að mæla olíu á vélinni. Lítil eða óeðlilega þykk olía bendir til að vélin sé mjög slitin.
- Athuga kælivatn á vél – engin olía má vera í vatninu. Olía í kælivatni gæti bent til þess að „headpakkning“ sé léleg eða að blokkin sé sprungin.
- Ræsa vélina -eru einhver óeðlileg hljóð í bílnum?
- Athuga kílómetramælinn – er bíllinn óeðlilega mikið keyrður? Reikna má með að meðalakstur sé frá 15.000 – 18.000 km á ári. Er bíllinn óeðlilega lítið keyrður? Það bendir til þess að hann hafi staðið lengi óhreyfður, sem er heldur ekki góðs viti.
- Hefur bíllinn verið smurður reglulega samkvæmt þjónustubókinni?
- Er hlaup í stýri? Það er kannað með því að rugga stýrinu fram og til baka og sjá hvort dekkin hreyfist ekki örugglega með.
- Stíga fast á hemlana. Fótstig á ekki að fara alveg í botn, heldur á að vera gott bil niður að gólfi.
- Virkar allt rafdrifna dótið; útvarpið, miðstöðin, samlæsingin, rúðurnar?
- Loga einhver ljós áfram þegar búið er að slökkva á bílnum?
Bretti, „body“ og hjólabarðar:
- Banka í brettin þar sem þau eru fest og í kringum luktir.
- Bendir eitthvað til að bíllinn hafi skemmst í árekstri?
- Eru dældir eða rispur sjáanlegar?
- Athuga hjólbarða og ástand þeirra. Eru þeir slitnir? Eru þeir af sömu gerð?
- Athuga dempara með því að ýta á aurbretti yfir hverju hjóli. Haldi bíll áfram að fjaðra geta höggdeyfar verið bilaðir eða ónýtir.
- Eru dældir í felgum? Það getur verið ábending um að bílnum hafi verið ekið óvarlega.
- Athuga hvort yfirbygging hafi skekkst.
- Festist segull allstaðar á „body“ bílsins? Ef ekki, þá hefur verið notað plast við viðgerð á honum.
Ryð, rúður og hurðir:
- Er lakk skemmt eða sést í ryð? Móða innan á bílrúðum í þurrviðri getur verið vísbending um ryð.
- Athuga hugsanlega ryðmyndun í hjólbogum.
- Er framrúða rispuð eða skemmd eftir steinkast?
- Eru hurðir mislitar eða misglansandi? Það gæti verið merki um árekstur.
- Gott er að skrúfa rúðurnar upp og niður og sjá hvort þær virki ekki eðlilega.
- Lítur bifreiðin almennt vel út? Eða er hún illa hirt?
- Falla hurðir vel að?
- Athuga slit í lömum með því að lyfta undir opnar hurðir.
- Eru rúðuþurrkurnar slitnar?
Sæti, mottur og belti:
- Lyfta gólfmottum til að kanna hugsanlega ryðmyndun. Athuga skal einnig undir mottu í farangursgeymslu og undir varadekkið.
- Gott er að þefa af teppum. Myglulykt getur bent til leka.
- Eru sætin slitin? Lykta þau illa?
- Eru brunagöt í áklæðinu?
- Getur verið að seljandi sé að kæfa vonda lykt með sterkum hreingerningarilmi?
- Virka sætisbeltin sem skyldi?
Ending einstakra hluta er misjafnlega löng
Því er sniðugt að fá upplýsingar frá seljanda um hvaða hluti hefur verið skipt og hvenær. Þannig er hægt að gera sér grein fyrir því hvaða viðhald er óhjákvæmilegt á næstu mánuðum eða árum. Hér að neðan má sjá lista yfir líftíma ákveðinna hluta í bifreiðum:
- Smurolíusíu í vél þarf að skipta um einu sinni á ári.
- Eldsneytissíu í bensínvél (með beinni innspýtingu) þarf að skipta um á hverjum 16.000 km.
- Eldsneytissíu í bensínvél (með blöndungi) þarf að skipta um á hverjum 30.000 km.
- Eldsneytissíu í dísilvél þarf að skipta um á hverjum 40.000 km.
- Loftsíu þarf að skipta um á hverjum 25.000 km.
- Síu í sjálfskiptingu þarf að skipta um á hverjum 40.000 km.
- Þurrkublöð endast 20.000 km. í notkun.
- Aðalljósaperur endast í 20.000 km. keyrslu.
- Kerti endast í 30.000 km. keyrslu.
- Hemlaborðar og hemlaklossar endast í 40.000 km. keyrslu.
- Útblásturskerfi endist í 40.000 km. keyrslu eða í 3 ár.
- Höggdeyfar endast í 50.000 km. keyrslu.
- Tímareim endist í 70.000 km. keyrslu.
- Kveikjukerfi endist í 90.000 km. keyrslu.
- Kúpling endist í 100.000 km. keyrslu.
- Hjólalegur endast í 150.000 km. keyrslu.
- Rafgeymi þarf að skipta um á 3ja til 5 ára fresti.
- Kælivökva þarf að skipta um á 2ja til 3ja ára fresti.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?