Hvað eru barnabætur?
Barnabætur eru styrkir frá ríkinu hugsaðir til þess að létta undir með barnafólki. Ákveðin upphæð er greidd til foreldra með hverju barni fram að 18 ára aldri. Barnabætur eru greiddar út fjórum sinnum á ári: 1. febrúar, 1. maí, 1. júní og 1. október. Þær eru ekki skattskyldar og teljast ekki til tekna.
Hversu háar eru barnabætur?
Barnabætur eru tengdar tekjum foreldra, hjúskaparstöðu og fjölda barna. Einnig er greitt hærra með börnum 7 ára og yngri.
Á heimasíðu Ríkisskattstjóra má finna reiknivél fyrir barnabætur.
Hvar er sótt um barnabætur?
Ekki þarf að sækja um barnabætur sérstaklega. Barnabætur eru reiknaðar í fyrsta skipti árið eftir að barn fæðist og í síðasta skipti eftir að barn nær 18 ára aldri.
Fá báðir foreldrar greiddar barnabætur?
Ef foreldrar eru giftir eða í sambúð skiptast barnabæturnar á milli þeirra. Ef foreldrar eru ekki í sambúð fær sá sem býr á lögheimili barnsins bæturnar, en hitt foreldrið fær engar bætur. Þetta á líka við um foreldra sem deila forsjá þess.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?