Þegar vinur manns og maki fara að vera saman

Það eru áreiðanlega einna sársaukafyllstu svikin, þegar tvær persónur sem maður treystir og eru manni jafn nánar; vinur manns og maki, fara að draga sig saman.

Eðlilegt er að upplifa mikil særindi og reiði og mikilvægt að reyna að takast á við tilfinningarnar á heilbrigðan hátt.

Gott er að ræða málin við einhvern sem maður treystir, eða leita til fagmanns á borð við prest eða sálfræðing. Í þessari stöðu eru nokkur atriði sem vert er að skoða:

  • Hvernig var ástarsambandið statt? Lék allt í lyndi eða voru miklir erfiðleikar fyrir? Stundum geta málin þróast á undarlegan veg út frá ákveðnum fyrirliggjandi erfiðleikum.
  • Hvernig er samband þeirra? Oft er það huggun ef alvöru ást er í spilinu, en ekki einungis losti og spenna, þótt það sé auðvitað erfitt að taka því líka. Í það minnsta ætti að vera erfiðara að beisla sanna ást, en smá skot eða losta.
  • Hversu lengi var þetta í gangi? Hversu lengi varði samband þeirra? Hversu oft hittust þau og hvernig var málunum háttað? Það getur skipt máli að hafa þessar upplýsingar áður en maður gerir upp við sig hvað maður vill í framhaldinu.
  • Hvaða tilfinningar ber maður til fólksins í dag? Er sambandið við makann, eða vininn, nógu dýrmætt til að maður vilji takast á við vandamálin og viðhalda sambandinu, þ.e. ef vilji er til þess hjá öðru hvoru þeirra. Ef farið er út í að lappa upp á samband, ástarsamband eða vinasamband, eftir reynslu eins og þessa, er gott að gera það undir handleiðslu fagmanns.

Þegar maður er hrifinn af maka vinar síns

Besta ráðið sem hægt er að veita fólki í þessari stöðu er auðvitað bara; gerðu ALLT sem þú getur til kveða niður þessar tilfinningar. Ef tilfinningarnar eru hinsvegar gagnkvæmar og á alvarlegu stigi, þ.e. að þið teljið bæði að þið séuð ætluð hvort öðru fyrir lífstíð, er ráðlegast að láta alla líkamlega snertingu vera uns núverandi sambandi hefur verið slitið. Ef parið hættir svo saman, ætti að láta þó nokkurn tíma líða uns sambandið verður líkamlegt. Það er bara heilbrigð kurteisi.

Það er óskrifuð regla í vinasamböndum, að maður skuli láta fyrrverandi maka vera. Þó getur verið í lagi að taka upp þráðinn við fyrrverandi maka vinar síns, ef tilfinningarnar eru sterkar og farið er rétt að málunum. Ef samband þeirra var ekki það alvarlegt, er það kannski í lagi. Hafi einstaklingurinn hinsvegar rist tilfinningar vinar manns djúpt, sambandið verið alvarlegt og aðskilnaðurinn sár, er betra að láta viðkomandi algjörlega vera. Mikilvægt er líka að ræða öll þessi mál til hlítar við vin sinn, áður en hlutirnir taka að þróast og nýtt ástarsamband hefur orðið til. Séu öll spil lögð á borðið er ávallt einfaldara að takast á við hlutina.

Þegar maður er hrifinn af vini maka síns

Ef maður er í þessari stöðu er mikilvægt að gera sér grein fyrir því, að með því að stíga ákveðin skref á maður það á hættu að eyðileggja ekki eingöngu samband sitt við maka sinn, heldur líka vináttusambandið þeirra á milli. Í þessari stöðu er gríðarlega mikilvægt að setja sig í spor makans og gera sér grein fyrir því hvernig manni myndi líða ef þetta henti mann sjálfan.

Hinsvegar, EF tilfinningarnar eru sannar, og gagnkvæmar, getur verið að þær eigi rétt á sér. Mikilvægt er að byrja á því að slíta sambandinu við makann og taka sér svo góðan tíma, áður en maður grípur til einhverra aðgerða. Dágóður tími ætti að líða frá því maður slítur sambandinu við makann og áður en eitthvað gerist með vininum. Verði svo til nýtt samband er mikilvægt að sýna vininum, fyrrverandi makanum, fyllstu tillitssemi.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar