Hvað gerir Skógræktarfélag Íslands?
Skógræktarfélag Íslands (SÍ) er landssamband skógræktarfélaganna í landinu. Það er málsvari skógræktarfélaganna, gætir hagsmuna þeirra og kemur fram fyrir þeirra hönd þegar þörf krefur. Félagið kemur að eða annast margvísleg verkefni, eitt sér eða í samvinnu við önnur félög (t.d. Landgræðsluskóga, Kolvið, Yrkjusjóð) og leiðbeinir aðildarfélögum, fyrirtækjum og almenningi eftir mætti um hinar ýmsu hliðar skógræktar. Útgáfa og fræðsla skipa stóran sess í starfsemi félagsins, sérstaklega útgáfa Skógræktarritsins, sem er eina tímaritið um skógrækt á Íslandi. Félagið og aðildarfélög þess standa fyrir ýmsum viðburðum – skógargöngum, námskeiðum og fræðslufyrirlestrum, ráðstefnum, jólatrjáasölu og fræðsluferðum, innanlands sem utan.
Fyrir hvað stendur skógræktarfélagið?
Markmið félagsins, skv. lögum þess, er að vinna að framgangi skóg- og trjáræktar í landinu og stuðla að hvers konar umhverfisbótum. Því verði náð með því að: a) efla og styrkja skógræktarfélögin; b) hvetja til og stuðla að gróðurvernd og landgræðslu; c) veita fræðslu um skóg- og trjárækt og gildi hvors tveggja fyrir þjóðfélagið og d) hvetja til, eiga frumkvæði að og taka að sér framkvæmdir að verkefnum í samvinnu við opinbera og/eða einkaaðila til þess að efla skógrækt í landinu.
Áherslur skógræktarfélaga eru aðeins mismunandi milli félaga, en öll félög vinna að uppbyggingu útivistarskóga, oftast nær í nágrenni við þéttbýli. Einhver vinsælustu útivistarsvæði landsins voru drifin upp af skógræktarfélögum, t.d. Heiðmörk, Öskjuhlíð og Kjarnaskógur.
Hvernig get ég tekið þátt?
Allir geta gengið í skógræktarfélag – núverandi félagar eru allt frá barnsaldri fram á tíræðisaldur. Aðkoma félagsmanna er aðeins mismunandi eftir einstökum félögum, þar sem hvert skógræktarfélag er með sínar áherslur, en flest félög bjóða upp á skógargöngur eða aðra skemmtiviðburði, vinnudag/kvöld o.s.frv.
Hjá skógræktarfélaginu er hægt að…
- styrkja gott málefni,
- taka þátt í skógargöngum og öðrum viðburðum í skóginum,
- taka þátt í gróðursetningu og annarri umhirðu,
- fá fræðslu um hinar ýmsu hliðar skóg- og trjáræktar,
- fá holla og góða útiveru.
Skógræktarfélag Íslands
Skúlatúni 6
105 Reykjavík
Vefur og facebook:
Hvernig er hægt að hafa samband við Skógræktarfélg Íslands?
Netfang: skog@skog.is
Sími: 551-8150.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?