Hvar má tjalda? 

Ekki kjósa allir að fara á skipulagðar útihátíðir og kjósa þess heldur að flakka um landið og njóta þess að tjalda um landið. Því er vert að hafa í huga þau lög og reglur sem gilda um að tjalda á Íslandi. Áttavitinn hefur að geyma grein um hvar má og má ekki tjalda.  Þumalputtareglan er sú að það er í lagi að tjalda við alla aðalvegi og á óræktuðu landi yfir eina nótt. Vilji maður hinsvegar tjalda nærri húsi ber manni að fá leyfi hjá húseiganda. Ef þú kannt ekki að tjalda, eða átt ekki tjald, má nýta sér þjónustu rentatent.is 
pro tip: Mikið er af heitum náttúrulaugum víða um landið og oft er að finna tjaldstæði í grennd við þær. Áttavitinn hefur tekið saman lista yfir hvar er að finna heitar náttúrulaugar á Íslandi. 

Áfengisneysla og almennar djammreglur

Mikil áfengisneysla hefur ætíð fylgt verslunarmannahelginni. Kjósir þú að djamma þessa helgi ætlum við ekki að banna þér það heldur viljum við bara benda þér á að gleyma ekki skynseminni. Hér eru nokkur einföld ráð fyrir neyslu áfengis.
 • Vertu meðvitaður um áhætturnar sem fylgja áfengisneyslu, s.s. álag á lifrina og möguleikann á áfengisdauða.
 • Drekktu nóg af vatni fyrir, eftir og á meðan þú djammar .
 • Drekktu hóflega.
 • Ekki drekka marga daga í röð, gefðu þér smá hvíld.

Kynferðisofbeldi

Því miður hafa nauðganir og kynferðisofbeldi virst loða við verslunarmannahelgina. Besta ráðið til þess að sporna við nauðgunum er einfalt: Ekki nauðga.
Áttavitinn vill benda þolendum kynferðisofbeldis og aðstandendum þeirra á að hægt er að leita sér hjálpar á neyðarmóttöku og áfallamiðstöð landspítalans, auk þess sem Stígamót og Drekaslóð veita óeigingjarna og góða þjónustu. Meira má lesa um kynferðisofbeldi á Áttavitanum.

Leiktu þér!

Mikilvægasta atriðið um verslunarmannahelgina er að leika sér og njóta þess að vera í fríi. Á Áttavitanum eru leikreglur nokkurra útileikja sem ættu að hjálpa þér að virkja hugmyndaflugið.
Svo má ekki gleyma því að syngja! Ef gítar er við höndina er um að gera að nýta sér Guitar Party, en þar má finna fjölda söngtexta og gripa við íslensk og erlend lög.

Eftirköstin (þynnka) 

Besta ráðið gegn þynnku er að bragða ekki áfengi. Kjósir þú hins vegar að drekka er best að gera það í hófi, ekki of mikið í einu og ekki í of langan tíma í senn. Hér eru nokkur góð ráð til að fyrirbyggja og/eða vinna á þynnku:
 • Ekki drekka á fastandi maga – það auðveldar lífið daginn eftir að nærast vel áður en byrjað er að þjóra.
 • Borðaðu eftir djammið – og þegar maður vaknar! Almennileg næring er nauðsynleg til að drepa timburmenn.
 • Drekktu nóg af vatni á milli drykja –  Mjög góð regla er hálfslítra vatnsglas eftir hvern hálfslítra bjór.
 • Allt er gott í hófi – Drekktu rólega, kannski er fínt að fá sér bara einn og einn pilsner inn á milli
 • Láttu renna af þér fyrir svefn – Þegar það eru um tvær klukkustundir í að þú farir að sofa skaltu sleppa áfenginu.
 • Treo (eða alka-seltzer) og C-Vítammín – virkar vel á slæmum morgnum.
 • Hreyfa sig utandyra –  Hreyfing og útivist á þunnum morgni hefur gríðarlegan lækningarmátt. – Þess má einnig geta, að þeir sem eru í góðu líkamlegu formi, hreyfa sig reglulega og borða skynsamlega, virðast ekki í eiga í jafnmiklum vandræðum með þynnku.
 • Sofa –  Á verstu morgnunum getur það stundum verið eina ráðið og þá er bara sofið út í eitt, fram eftir öllum degi. Þeir sem upplifa það eftir hvert djamm ættu að taka drykkjuvenjur sínar til endurskoðunar.
 • Afréttarinn er ekki lausnin – hann er mýta.
Þú getur lesið nánar um góð ráð gegn þynnku á áttavitanum einnig er fróðlegt að lesa sig til um lifrina og áhrif alkóhóls á hana.

 

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar