Hvað þýðir þingræði?
Þingræði þýðir að ríkisstjórn og ráðherrar landsins sitja í umboði þingsins og þurfa að njóta trausts meirihluta þess.
Með öðrum orðum situr framkvæmdavaldið (ríkisstjórnin) í skjóli löggjafarvaldsins (Alþingis) þar sem þingræði ríkir og þurfa ráðherrar að fylgja fyrirmælum þingsins. Ef meirihluti þingsins styður ekki ríkisstjórnina verður hún að víkja.
Þingræði getur verið „jákvætt“ þingræði þar sem þingið verður að kjósa ríkisstjórnina sérstaklega. Þingræði á Íslandi er hins vegar „neikvætt“ þingræði þar sem þingið þarf ekki að kjósa ríkisstjórnina sérstaklega, en getur kosið hana í burtu með því að samþykkja svokallaða vantrausttillögu.
Er þingræði það sama og lýðræði?
Nei. Þingræði er eingöngu nafn yfir ákveðið fyrirkomulag í lýðræðisríkjum. Þing geta t.d. verið skipuð ólýðræðislega í þingræðisríkjum en þá kallast það samt þingræði.
Flest Evrópuríki búa við þingræði en Bandaríkin og mörg ríki í Suður-Ameríku og Austur-Evrópu búa við svokallað „forsetaræði“. Þar sem forsetaræði ríkir þarf ríkisstjórnin ekki að njóta stuðnings meirihluta þingsins. Þar skipar forsetinn einfaldlega þá ríkisstjórn sem hann kýs.
Þýðir þingræði að þingið ráði öllu?
Ekki endilega. Þingræði þýðir í raun hvorki meira né minna en það að ríkisstjórnin þarf að njóta stuðnings, eða vera umborin af, meirihluta þingsins. Eftir sem áður geta völd hins opinbera verið (og eru yfirleitt) hjá fleirum en þinginu; t.d. hjá dómstólum, forseta, sveitarstjórnum og almenningi í gegnum beint lýðræði.
Hugmyndin um þrískiptingu ríkisvaldsins er t.d. ríkjandi víða og reynist oft erfitt að samræma hana þingræðinu. Þrískipting gengur út á að framkvæmdavald og löggjafarvald (og dómsvald) sé aðskilið en þingræði gengur út á tengsl framkvæmdavaldsins og löggjafarvaldsins.
Flest Evrópuríki búa við þingræði en Bandaríkin og mörg ríki í Suður-Ameríku og Austur-Evrópu búa við svokallað „forsetaræði“. Þar sem forsetaræði ríkir þarf ríkisstjórnin ekki að njóta stuðnings meirihluta þingsins.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?