Í alþingiskosningum er kosið milli framboðslista innan kjördæma. Hvert kjördæmi hefur tiltekið marga þingmenn á Alþingi (9-12) og eru flestir þeirra kosnir svokallaðri hlutfallskosningu (sjá grein um íslensk kosningakerfi) innan kjördæma.

1-2 af þingmönnum hvers kjördæmis eru hins vegar svokallaðir jöfnunarþingmenn eða uppbótarþingmenn. Þessum þingsætum er ætlað að vega gegn misvægi atkvæða í kjördæmakerfinu, þannig að fjöldi þingsæta sem stjórnmálaflokkar fá á Alþingi sé í betra samræmi við fjölda atkvæða sem þeir fá á landsvísu.

Hvernig er jöfnunarþingsætum úthlutað?

Stjórnmálaflokkar eða samtök sem hafa boðið fram framboðslista sem hafa fengið samanlagt minnst 5% greiddra atkvæða á landsvísu koma til greina við úthlutun jöfnunarsæta.

Jöfnunarþingmenn á Alþingi eru níu í heild, en þeim er dreift á kjördæmin þannig að kjördæmin á suðvesturhorninu hafa tvo jöfnunarþingmenn hvert en hin kjördæmin einn jöfnunarþingmann hvert.

Til þess að ákveða hvaða flokkar fá jöfnunarþingmenn er fyrst skoðað hversu mörg atkvæði flokkur hefur fengið á landsvísu og hversu stórt hlutfall þau eru af öllum atkvæðum á landinu. Síðan er skoðað hversu marga þingmenn flokkurinn hefur í raun fengið kjörna í kosningunum, í öllum kjördæmunum samanlagt.

Hlutfall heildaratkvæða á landsvísu segir okkur í raun hversu marga þingmenn flokkurinn fengi ef landið væri eitt kjördæmi. Ef hann hefur fengið færri þingmenn kjörna á landinu í gegnum kjördæmi en það segir til um, eru jöfnunarsæti notuð til þess að bæta honum það upp; þess vegna eru þau líka kölluð „uppbótarsæti“.

Oftast eru fleiri en einn flokkur með færri þingmenn kjörna en þeir myndu fá í einu kjördæmi og þá þarf að ákveða hvaða flokkur fær jöfnunarþingmann og í hvaða röð. Það er ákveðið með því að bera saman hlutfall atkvæða og hlutfall þingmanna á landsvísu fyrir alla flokka. Sá flokkur sem er með mestan mun á þessu tvennu fær fyrsta jöfnunarþingmanninn.

Til þess að ákveða í hvaða kjördæmi flokkur fær jöfnunarþingmann er skoðað í hvaða kjördæmi hann er næst því að fá inn þingmann. Næsti maður á framboðslista flokksins í því kjördæmi verður fyrsti jöfnunarþingmaður og þannig þingmaður flokksins í kjördæminu.

Hvað er svona flókið?

Úthlutunarferlið er nokkuð flóknara en þetta. Jöfnunarþingmönnum er úthlutað koll af kolli; þ.e. fyrsta jöfnunarþingmanni er úthlutað og síðan er skoðað þingmannahlutfall og atkvæðahlutfall flokkanna eftir þá úthlutun. Sá flokkur sem hefur þá mesta misræmið fær næsta jöfnunarþingmann við svo búið, þá eru hlutföllin skoðuð eftir þá úthlutun til að ákvarða næsta jöfnunarþingmann o.s.frv.

Svona heldur þetta áfram þar til níu jöfnunarsætum hefur verið úthlutað. Hafi hins vegar þegar verið úthlutað þeim 1-2 jöfnunarsætum sem tiltekið kjördæmi hefur, fær flokkurinn ekki jöfnunarsæti í því kjördæmi. Þá þarf að leita til þess kjördæmis sem hann á næstmestan möguleika á að ná þingmanni inn.

Á kosninganóttu taka atkvæðatölur líka breytingum eftir því sem líður á talningu þeirra. Um leið og nýjar tölur benda til þess að flokkur fái fleiri eða færri kjördæmakjörna þingmenn en áður getur öll úthlutun jöfnunarsæta riðlast.

Þegar það gerist breytast nefnilega áðurnefnt misræmi flokksins milli þingmannahlutfalls og atkvæðahlutfalls hans. Þá missir hann kannski jöfnunarþingmann á móti kjördæmakjörna þingmanninum og þá þarf að úthluta þeim öllum upp á nýtt.

Þannig getur Samfylkingin t.d. grætt jöfnunarþingmann í Reykjavík-Norður á því að Sjálfstæðisflokkurinn missi kjördæmakjörinn þingmann í NV-kjördæmi til Framsóknarflokksins!

Sá flokkur sem er með lægsta hlutfall kjördæmakjörinna þingmanna (fyrrnefnda) miðað við atkvæðahlutfall (síðarnefnda) fær fyrsta jöfnunarþingmann.

Myndin sem fylgir greininni er af Guðmundi Steingrímssyni, Alþingismanni, sem er eitt fórnarlamba óvissunnar sem fylgir uppbótaþingmannakerfi á kosninganótt. Sjá t.d. bloggsíðu hans.

Sjá einnig:

lög um kosningar til Alþingis, gr. 106.-109;

vef landskjörstjórnar um  kosningafræði, þ.e.: „Greining á úthlutun þingsæta“;

Vísindavefinn, þ.e.: „Hverjar eru úthlutunarreglur jöfnunarþingsæta?“

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar