Á ferðalögum er skynsamlegt að huga að gistingu áður en komið er á áfangastað. Ef maður ferðast á háannatíma er mjög líklegt að allt sé upp bókað og gistingin sem maður fær sé annað hvort illa staðsett eða allt of dýr. Með smá útsjónarsemi má lágmarka gistikostnað á ferðalögum til muna. Hér eru nokkrir gistimöguleikar sem koma til greina:
Að tjalda
Að gista á tjaldsvæðum er yfirleitt ódýr kostur og þar hefur maður oftar en ekki aðgang að salerni og annarri þjónustu. Á sumum tjaldsvæðum er líka hægt að leigja litla kofa til að gista í. Kjósi maður að tjalda einhversstaðar úti á víðavangri er mikilvægt að kynna sér reglur um hvar má tjalda og hvar ekki. Ef það stendur til að ferðast innanlands er gott að kynna sér upplýsingarnar á
tjalda.is en vefsíðan er einnig á
Facebook
Farfuglaheimili / hostel?
Farfuglaheimilin eru ódýr lausn. Þar deilir maður oftast svefnsal og salerni með öðrum ferðalöngum. Í mörgum löndum er nauðsynlegt að kaupa félagskort, til að nota á farfuglaheimilunum. Hægt er að lesa meira um
hostel á Áttavitanum.
Hér eru nokkrir tenglar sem bjóða upp á bókanir á farfuglaheimilum, eða hostelum:
Gistiheimili
Gistiheimili eru á margan hátt líkt og heimilislegri hótel. Þar fær maður eigið herbergi oftast með salerni og baðaðstöðu sem maður deilir með öðrum. Gistiheimili eru ódýrari en hótel, en dýrari en farfuglaheimilin. Aðstaðan getur verið mjög misgóð eftir stöðum, en ef maður er heppinn getur maður dottið niður á gistiheimili sem býður jafnvel upp á viðkunnalegri aðstöðu en mörg fín hótel.
Rúm og morgunmatur / Bed and breakfast
Þessi möguleiki stendur oft til boða í heimahúsum, þar sem fólk leigir út aukaherbergi fyrir ferðalanga og morgunmatur er innifalinn í verðinu. Oftast nær snæðir maður þá morgunverðinn með fólkinu, svo þetta er afar heimilislegur kostur og kærkominn fyrir þá sem vilja kynnast heimamönnum og þeirra menningu.
Hótel
Að gista á hóteli er auðvitað dýrasti kosturinn, en hótelin geta verið misdýr og misgóð. Ef maður á pening og er að leita eftir lúxus getur verið afar notalegt að dvelja á góðu hóteli. Nauðsynlegt er þó að kynna sér staðinn, gera verðsamanburð og bóka tímanlega.
Góðar síður til að leita af hótelum um allan heim
Airbnb
Hver hefur ekki heyrt um Airbnb? Við skulum nú samt stikla á stóru; Airbnb er síða þar sem að einstaklingar bjóða upp á gistingu í íbúð á þeirra vegum gegn gjaldi. Verðið fer yfirleitt eftir því hversu mikil ásóknin er í gistingu hverju sinni. Þess má geta að hvergi í evrópu er Airbnb gisting eins dýr og á Íslandi. Airbnb er nokkuð örugg og ódýr leið til að finna sér gistingu.
Hvað er Couch surfing?
Margt ungt fólk nýtir sér
Couch surfing möguleikann. Couch surfing felst í því að gista heima hjá fólki, oftast nær á sófanum eða jafnvel á dínu inni í stofu. Maður greiðir ekkert fyrir, annað en það að bjóða slíkt hið sama heima hjá sér.
Couch surfing gengur mikið út á gagnkvæma virðingu og traust
Til að njóta þessa fyrirkomulags af alvöru er nauðsynlegt að vera reiðubúinn til að gefa dálítið af sér. Maður þarf að vera í stakk búinn til að fá ókunnuga manneskju inn til sín og hafa ofan af fyrir henni meðan á dvölinni stendur. Best er að geta eytt dálitlum tíma með gestinum, kynnst honum og kynnt staðinn þar sem maður býr.
Hvernig tekur maður þátt í Couch surfing?
Til að taka þátt í Couch surfing þarf að stofna notendareikning á
Couch surfing heimasíðunni. Þar fær maður umsagnir frá notendum, bæði þeim sem koma og gista heima hjá manni og einnig þeim sem fá mann í heimsókn.
Myndin er í eigu Díönu Írisar Jónsdóttur og er birt með leyfi hennar.
- Var efnið hjálplegt?
- Já Nei
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?