Er eyða í ferilskránni?
Ef það er eyða í ferilskránni þarf að fylla upp í hana. Ekki er óalgengt að eyður eða göt séu í ferilskrám hjá ungu fólki. Það þarf þó að fylla upp í þær á réttan máta – sem getur verið snúið í ákveðnum tilvikum.
Óþarft er að fylla upp í stuttar eyður
Ef fólk er frá vinnu eða skóla í styttri tíma er óþarft að taka það fram. Það er alls ekki óalgengt að ungt fólk sé á milli starfa á meðan það er að hasla sér völl á vinnumarkaðnum.
Ekki taka fram atvinnuleysi
Það eitt að sækja um vinnu þýðir að maður sé annaðhvort atvinnulaus eða hafi hug á að skipta um vinnu. Í atvinnuviðtalinu er hægt að svara fyrir atvinnuleysið og ef til vill taka til það jákvæða sem maður lærði eða gerði á þeim tíma. Því er óþarft að minnast á atvinnuleysistímabil í ferilskrám – betra er að einbeita sér að þeirri reynslu sem maður aflaði sér á umræddu tímabili.
Fólk á ekki að taka fram að það hafi verið rekið úr vinnu
Slíkt á ekki heima í ferilskrá. Ef fólk er spurt út í slíkt í atvinnuviðtali, er þó betra að vera hreinskilinn og segja satt og rétt frá. Best er að gera lítið úr uppsögninni, forðast að tala illa um fyrri vinnuveitendur og útskýra málið á einfaldan og hlutlausan hátt. Í þessum málum er best að leggja áherslu á það jákvæða.
Nám, fæðingarorlof og ferðalög eru góðar og gildar ástæður
Ef stór göt eru í ferilskránni vegna þessa er í góðu lagi að minnast á það. Þetta eru allt hlutir sem styrkja fólk sem einstaklinga – og geta hreinlega verið meðmæli útaf fyrir sig. Ekki er ráðlegt að eyða miklu púðri í slíkt – betra er að gera grein fyrir ferðalaginu eða orlofinu í nokkrum orðum.
Göt vegna langvarandi veikinda er skynsamlegt að gera grein fyrir
Ef fólk hefur verið frá vinnu og námi í marga mánuði eða ár vegna veikinda er sennilega betra að segja frá því í ferilskránni. Annað gæti litið undarlega út. Fólk verður þó að sannfæra vinnuveitandann um að það hafi jafnað sig á þessum veikindum – og þau komi ekki til með að hafa nein áhrif á starfsgetuna nú.
Hvað með fólk sem hættir í námi?
Fólk ætti að forðast að taka fram að það hafi hætt í námi. Betra er að setja inn þann tíma sem fólk var í námi – því það er jú ákveðin reynsla, en taka fram að námi sé ólokið. Í atvinnuviðtalinu er svo hægt að gera grein fyrir þeim ástæðum sem urðu til þess að fólk hætti – því það verður líklega spurt út í það.
Hvað með stutt verkefni og sumarstörf – eiga þau að fara inn í ferilskrá?
Öll reynsla sem mögulega getur styrkt umsóknina og ímynd fólks á heima í ferilskrá. Ferilskráin er ekki eingöngu langur listi sem þarf að fylla út – heldur upplýsingar um hæfileika og reynslu. Stutt verkefni, námskeið og störf geta í sumu tilfellum verið mikilvægari reynsla en það sem fólk hefur gert á löngum tíma.
Á Áttavitanum má finna alls kyns upplýsingar um ferilskrá, algeng mistök við gerð hennar og kynningarbréfið sem gott er að fylgi með!
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?