Heimsmarkmiðin

Til þess að allir jarðarbúar geti lifað góðu lífi, þá er mikilvægt að við höfum öll aðgang að hreinu lofti, vatni og mat. Við eigum einnig rétt á að njóta grundvallarréttinda, mannréttinda.

Þetta er þó ekki alveg sjálfsagður hlutur, við þurfum alltaf að standa vörð um réttindin okkar og jörðina sjálfa. Gjörðir okkar hafa áhrif á umhverfið og því þurfum við að gæta þess að valda ekki skaða. Þannig stuðlum við að sjálfbærri þróun.

Við eigum einungis eitt líf og eina jörð.

Hvað er sjálfbær þróun?

Sjálfbær þróun snýst meðal annars um að hlúa að náttúrunni, nýta auðlindir hennar á ábyrgan hátt og tryggja mannréttindi komandi kynslóða.

Sjálfbærni felur í sér að gera hlutina án þess að skaða náttúruna eða annað fólk.

Til þess að stuðla að sjálfbærri þróun ákváðu Sameinuðu þjóðirnar að búa til skýr markmið um leiðir til þess.

Hvað eru Sameinuðu þjóðirnar?

Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) eru alþjóðasamtök sem stofnuð voru á árinu 1945. Í samtökunum eru öll sjálfstæð ríki í heiminum nema eitt (Vatíkanið). Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar með það markmið að efla alþjóðlegt samstarf og öryggi í heiminum til þess að viðhalda friði. Nánar hér.

Hvað þýða þessi markmið?

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru gerð með það markmið að  leiða til betra lífs, lífsskilyrða og umhverfis árið 2030. Fulltrúar allra aðildarríkja Sameinuðu Þjóðanna samþykktu heimsmarkmiðin og þau tóku gildi í ársbyrjun 2016. Markmiðin eru 17 talsins en undirmarkmiðin eru 169 talsins.

Það skiptir máli að allir viti af heimsmarkmiðunum, svo að við getum öll unnið að þeim saman.

Hver eru markmiðin?

  1. útrýma fátækt í allri sinni mynd alls staðar.
  2. Útrýma hungri, tryggja fæðuöryggi og bætta næringu og stuðla að sjálfbærum landbúnaði.
  3. Stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan fyrir alla frá vöggu til grafar.
  4. Tryggja öllum jafnan aðgang að góðri menntun og tækifæri til náms alla ævi.
  5. Jafnrétti kynjanna verði tryggt og staða allra kvenna og stúlkna styrkt.
  6. Tryggja aðgengi allra að hreinu vatni og sjálfbæra nýtingu þess svo og hreinlætisaðstöðu.
  7. Tryggja öllum aðgang að öruggri og sjálfbærri orku á viðráðanlegu verði.
  8. Stuðla að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla.
  9. Byggja upp trausta innviði, stuðla að sjálfbærri iðnvæðingu og hlúa að nýsköpun.
  10. Draga úr ójöfnuði í heiminum.
  11. Gera borgir og íbúðarsvæði örugg, sjálfbær og öllum aðgengileg.
  12. Tryggja sjálfbær neyslu- og framleiðslumynstur.
  13. Bráðaaðgerðir gegn loftlagsbreytingum og áhrifum þeirra.
  14. Vernda og nýta hafið og auðlindir þess á sjálfbæran hátt.
  15. Vernda og endurheimta vistkerfi á landi og stuðla að sjálfbærri nýtingu þeirra, vinna að sjálfbærri stjórn skóga, berjast gegn eyðimerkurmyndun, stöðva jarðvegseyðingu, endurheimta landgæði og sporna við hnignun líffræðilegrar fjölbreytni.
  16. Stuðla að friðsælum og sjálfbærum samfélögum fyrir alla jarðarbúa, tryggja öllum jafnan aðgang að réttarkerfi og byggja upp skilvirkar og ábyrgar stofnanir á öllum sviðum.
  17. Blása lífi í alþjóðlegt samstarf um sjálfbæra þróun og grípa til aðgerða.

Markmiðin og Ísland

Ísland er eitt þeirra aðildarríkja sem hefur samþykkt að vinna að heimsmarkmiðunum. Ríkisstjórnin hefur forgangsraðað þeim sérstaklega og á hennar vegum er starfandi verkefnastjórn sem heldur utan um allt í tengslum við innleiðingu markmiðanna hér á landi. Hér má lesa stöðuskýrslu sem að nefndin gaf út.

Á Íslandi er starfrækt ungmennaráð heimsmarkmiðanna sem tryggir aðkomu barna að markmiðunum. Meðlimir ungmennaráðsins hafa fengið sérstaka fræðslu um markmiðin og miðla henni áfram á samfélagsmiðlum. Það má fylgjast með ungmennaráðinu hér.

Heimildir og nánari upplýsingar:

Hér má sjá myndband sem útskýrir hvers vegna heimsmarkmiðin eru nauðsynleg.

Fréttir úr framtíðinni – Ein af kynningarherferðum heimsmarkmiðanna hér á landi.

Hér má sjá viðtal við íslenska stúlku sem var valin til þess að fara til Úganda að tilefni heimsmarkmiðanna.

Hér má finna myndbönd sem fara nánar í nokkur af heimsmarkmiðunum.

Facebook síða heimsmarkmiðanna á íslensku.

Fréttaskýring KrakkaRúv um heimsmarkmiðin.

Um Sameinuðu þjóðirnar.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar