Hvað þýðir hægri og vinstri í stjórnmálum?

„Hægri“ og „vinstri“  eru hugtök sem notuð hafa verið yfir stjórnmálastefnur, stjórnmálaflokka og einstaklinga í mörg hundruð ár um allan heim.

Í sem stystu máli stóð hægri upphaflega fyrir íhaldssemi og vinstri fyrir breytingar. En á síðari tímum hefur hægri aðallega staðið fyrir minni ríkisafskipti en vinstri fyrir meiri.

Málið er hins vegar alls ekki svo einfalt og hafa hugtökin staðið fyrir ólíka hluti milli tímabila og samfélaga – og standa í raun yfirleitt fyrir fleira en eitt á sama tíma.

Þannig þýðir vinstri ekki alltaf það sama og vinstri – og hægri alls ekki alltaf það sama og hægri. Þess vegna er mikilvægt að skilja hugtökin og þýðingu þeirra örlítið betur en þetta.

Hvaðan koma hugtökin?

Eftir lýðræðisbyltinguna í Frakklandi árið 1789 sem færði völd konungsins í hendur þjóðkjörins þings. Má segja að nútímastjórnmál hafi tekið að mótast.
Á þeim tíma sátu íhaldsmenn fylgismenn konungsvalds og óbreytts ástands til hægri í franska þinginu. Þar á móti voru umbótamenn og lýðræðissinnar til vinstri.

Síðan þá hefur grundvallar aðgreining hægri og vinstri lengi verið talin sú að hægri tákni íhaldsstefnu eða óbreytt ástand en vinstri umbótastefnu eða breytingar.

Er það svo einfalt? Hvernig hafa hugtökin þróast?

Með framvindu tímans og framþróun flókinna nútímasamfélaga flæktust líka stjórnmálin og sú einfalda aðgreining sem hægri og vinstri höfðu byggt á var ekki lengur fullnægjandi. Umbótasinnar börðust fyrir mismunandi hlutum og íhaldsmenn vissu ekki hvaða ástand þeir áttu að halda í!

Sósíalistar komu fram á sjónarsviðið, settust vinstra megin við lýðræðissinna á franska þinginu og kröfðust samfélagsjöfnuðar og þjóðnýtingar allrar framleiðslu.

Sósíalismi varð hið nýja vinstri en bæði íhaldsmenn og lýðræðissinnar töldust til „hægri“, þar sem þeir stóðu gegn þeim breytingum sem sósíalistar boðuðu.

Upp úr sósíalismanum þróaðist síðan á 20. öldinni svokallaður sósíaldemókratismi, sem var krafa um jöfnuð og samfélagsbreytingar sem gekk styttra en sósíalisminn. Sú stefna var líka talin vera til vinstri, þó ekki jafn langt til vinstri og sósíalismi, en þeir sem stóðu gegn kröfum hvoru tveggja í nafni frjálshyggju eða íhaldssemi voru áfram taldir vera til hægri.

Er bæði frjálshyggja og íhaldssemi til hægri?

Eins og fram kemur hér að ofan var íhaldssemi upphaflega talin einkenna hægri-stefnu. Síðar varð frjálshyggja hins vegar ráðandi á þeim væng, þó íhaldssemi sé sums staðar enn tengd við hann.

Upphaflegu vinstrimennirnir; lýðræðissinnar á franska þinginu; aðhylltust raunar klassíska frjálshyggju, sem boðaði mannréttindi, lýðræði, einstaklingsfrelsi og markaðsfrelsi. Frjálshyggjumenn voru því upphaflega til vinstri, gegn íhaldssemi til hægri.

Þegar þessum lýðræðissinnum þóttu breytingakröfur sósíalista um samfélagsjöfnuð ganga gegn þessum frelsisgildum þóttu þeir hins vegar „íhaldssamir“ og urðu taldir til hægri en sósíalistarnir urðu nýju vinstrimennirnir; sú tenging hefur haldist að nokkru síðan.

Bæði frjálshyggjumenn og íhaldsmenn hafa því löngum verið taldir til hægri, þó þeir eigi alls ekki alltaf samleið. Fasistar og þjóðernissinnar í Evrópu hafa t.d. löngum verið taldir langt til hægri, þó stefna þeirra eigi í sjálfu sér lítið skylt við þá einstaklingshyggju og nýfrjálshyggju sem líka hefur verið staðsett þar.

Í Bandaríkjunum og víðar hefur t.a.m. löngum ríkt mikil togstreita á milli frjálshyggju (e. libertarianism) og íhaldssemi (e. conservatism) á hægri vængnum, en á Íslandi er frjálshyggjan raunar mjög ráðandi þar og íhaldssemin lítið áberandi sem stjórnmálastefna.

Sjá einnig:

grein um hægri og vinstri í íslenskum stjórnmálum,
BA-Ritgerð og rannsókn um hægri og vinstri í stjórnmálum: „Íslenskir Áttavitar: Þýðing hægri og vinstri í íslenskum stjórnmálum“.

Í sem stystu máli stóð hægri upphaflega fyrir íhaldssemi og vinstri fyrir breytingar, en á síðari tímum hefur hægri aðallega staðið fyrir minni ríkisafskipti en vinstri fyrir meiri.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar